Fiskar stjórnast af tilfinningum. Og það sem meira er tilfinningarnar gera þá mun hæfari til að lifa af í breyttu umhverfi en ef þeir tækju ákvarðanir sem væru byggðar á skynsamlegu mati. Þetta kemur fram á norska vísindavefnum forskning.no.

Vísindamenn í Björgvin í Noregi komust að þessari niðurstöðu og hún stangast á við það sem áður var talið. Tilfinningalíf laxsílda var rannsakað en fiskurinn lifir á 100 til 300 metra dýpi í norskum fjörðum og í Noregshafi. Vísindamennirnir fundu út að greinilegur munur var á skynjun einstaklinga í hópnum varðandi ótta og svengd. Nokkrir fiskanna voru hræddir við rándýr en aðrir fundi ekki til ótta. Þá kom í ljós að svangir fiskar voru minna hræddir því ekkert komst annað að hjá þeim en að ná í mat. Saddir fiskar voru hins vegar mjög óttaslegnir við hina minnstu ógn og sóttu ekki fram.

Vísindamennirnir drógu þá ályktun að tilfinningaleg viðbrögð væri erfðaþáttur sem réði möguleikum fiska til að lifa af.

Sjá nánar HÉR .