Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Landeldisfyrirtækisins First Water, óskar í bréfi til sveitarfélagsins Ölfus eftir skilningi á ríkum hagsmunum fyrirtækisins varðandi nýtingu náttúruauðlinda á svæðinu.

Eins og komið hefur fram hefur Eggert Þór lýst áhyggjum af áhrifum áformaðrar mölunarverksmiðju fyrirtækisins Heidelberg í sömu götu og First Water er með sína starfsemi.

„First Water vill með bréfi þessu þakka vönduð og fagleg viðbrögð við þeim athugasemdum og áhyggjum sem settar voru fram með bréfi undirritaðs dagsettu 14. maí og ítrekuð með erindi dagsettu 3. júlí þar sem lagðar voru fram formlegar athugasemdir til viðbótar við áður auglýst umhverfismat,“ segir í bréfi Eggerts Þór sem lagt var fram í skipulags- og umhverfisnefnd Ölfus nú í morgun.

Þakkar skilning og óskar eftir skilningi

„First Water óskar eftir skilningi á því að hagsmunir félagsins hvað varðar nýtingu náttúruauðlinda á svæðinu eru ríkir og því afar mikilvægt að finna þann skilning sem sveitarfélagið hefur sýnt hvað úrvinnslu mála varðar,“ segir í bréfinu. Sá skilningur komi berlega í ljós í minnisblaði bæjarstjóra, frá 10. júlí síðastliðinn „Varhugur First Water hvað varðar fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg við Keflavík í Þorlákshöfn“.

Vilja leiða uppbyggingu fiskeldis við Laxabraut

Segir Eggert Þór í bréfinu að First Water muni hér eftir sem hingað til leitast við vinna náið með sveitarfélaginu og öðrum hagsmunaaðilum eins og það hafi gert frá því að undirbúningur hófst fyrir sex árum. „Áfram hefur félagið hefur fullan hug á að vera leiðandi í þeirri spennandi uppbyggingu sem fram undan er í fiskeldi við Laxabraut,“ segir í bréfi forstjórans.

„Nefndin þakkar erindið og ítrekar vilja sinn til að nálgast ábendingar FW af virðingu fyrir heildarhagsmunum íbúa og fyrirtækja á svæðinu,“ bókaði skipulags- og umhverfisnefnd Ölfuss eftir að bréfið var lagt fram.