„Það er enginn fiskur hérna við Færeyjar eins og er, það er búið að vera mjög lélegt,“ sagði Ómar Sigurðsson, skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni SU frá Eskju, þegar rætt var við hann á mánudaginn.

„Við erum suður af Færeyjum. Við vorum búnir að vera suður af gráa svæðinu í nokkra daga en erum núna sunnan í Munkagrunninu, það er ekkert að frétta,“ sagði Ómar. Fjögur eða fimm skip hafi verið á þessum slóðum í nokkra daga.

Léleg veiði við Færeyjar

„Það er bara búið að vera mjög lélegt síðustu dagana, 50 til 200 tonn á sólarhring. Við erum komnir með 4-500 tonn,“ sagði Ómar um stöðuna hjá Aðalsteini Jónssyni. „Ég reikna með að sjá aðeins til í einn, tvo daga kannski og svo förum við bara heim örugglega.“

Mikill kvóti er enn eftir í kolmunnanum. Ómar er farinn að horfa fram á haustið með að ná honum.

„Það er náttúrlega vertíð í íslensku lögsögunni í Rósagarðinum í haust. Það er búin að vera fín veiðin í Rósagarðinum síðustu tvö eða þrjú haust. Og ef hann hann klikkar er alltaf hægt að fara til Færeyja aftur, hann er hér á haustin.“

Loðnan þéttist kannski

Hafrannsóknastofnun hefur gengið treglega að finna næga loðnu til að hægt sé að gefa út kvóta. Ómar kvaðst búast við að farið yrði aftur til loðnuleitar nú í vikunni. Það er svo reyndin því til stendur að þrjú skip haldi til loðnuleitar á morgun eins og fram kom á vef Fiskifrétta í gær.

„Loðnan er einhvers staðar falin. Það er lágmarkið að finna það sem þeir voru búnir að finna í haust. Maður gerir nú ekki kröfur um meira en það,“ sagði Ómar og vísaði til þess að í loðnuleitarleiðangri fyrir áramót hafi lítið vantað upp á magnið til að gefa ráðgjöf um útgáfu kvóta.

„Loðnan er einhvers staðar og getur komið seint. Hún getur verið dreifð og þést núna. Við ættum að gefa henni einhverja daga í viðbót.“