Landað úr ísfisktogaranum Gullver NS á Seyðisfirði í gær. Skipið kom til hafnar aðfaranótt laugardags en vegna páskahátíðarinnar var beðið með löndunina.
Skipstjóri í veiðiferðinni var Þórhallur Jónsson og segir hann í spjalli á heimasíðu Síldarvinnslunnar að hún hafi gengið vel.
„Aflinn var um 116 tonn og fékkst hann á fjórum sólarhringum eða svo. Uppistaða aflans var þorskur. Við vorum að veiðum í Hvalbakshallinu í ágætis veðri og vorum komnir til hafnar fyrir páskahretið,“ segir Þórhallur.
Gullver hélt til veiða á ný í gærkvöldi.