Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa fiskað vel síðustu daga þrátt fyrir leiðindaveður. Páll Jónsson landaði í Grindavík í gær og Sighvatur mun landa á Skagaströnd síðdegis í dag. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við skipstjórana og fékk fréttir af veiðiskapnum.
Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, var sáttur við túrinn. „Þetta voru 5-6 dagar að veiðum hjá okkur og aflinn var 122 tonn. Meirihluti aflans var þorskur en síðan var töluvert af ýsu, steinbít, hlýra og löngu. Þetta voru tvær lagnir á Kötlugrunni og tvær og hálf í Meðallandsbugtinni. Það var þokkalegt veður tvo fyrstu dagana en síðan voru þetta bölvuð leiðindi. Rétt er að geta þess að það er mun betra að eiga við línuna en trollið í veðri eins og verið hefur. Það þarf býsna mikið að ganga á til þess að við lokum lúgunni. Við erum mjög sáttir við þennan túr. Aflinn var hinn þokkalegasti miðað við aðstæður og við erum bara brattir hér um borð,” sagði Benedikt.
Landað á Skagaströnd
Óli Björn Björgvinsson, skipstjóri á Sighvati, var einnig sáttur við veiðiferðina þrátt fyrir lætin í veðrinu. „Vegna veðurs héldum við norður fyrir landið en við byrjuðum á að taka eina lögn í Jökuldýpinu. Síðan var ein tekin sunnan við Djúpálinn og þvínæst tvær og hálf utarlega í Húnaflóanum. Það er gott að flýja þangað í svona veðurlagi og þetta er þriðja árið í röð sem við veiðum á þessum slóðum um þetta leyti árs. Þarna er góður botn, þægilegt að draga og ekki eins mikill sjór og víða annars staðar. Við löndum svo á Skagaströnd síðdegis eins og við höfum oft áður gert en þar fáum við afar góða þjónustu að öllu leyti. Aflinn í túrnum er rétt tæplega 100 tonn og það er ekki hægt annað en að vera sáttur,” sagði Óli Björn.
Páll Jónsson hélt á ný til veiða í gærkvöldi og Sighvatur heldur væntanlega til veiða að lokinni löndun í kvöld.