Það gengur vel að veiða kolmunna í færeysku lögsögunni þessa dagana. Barði NK kom til Neskaupstaðar með fullfermi eða 2.100 tonn á miðvikudagskvöld og Beitir NK kom í gærkvöldi með 3.100 tonn sem einnig er fullfermi. Heimasíða Síldarvinnslunnar heyrði hljóðið í skipstjórunum og spurði um gang veiðanna.
Theodór Haraldsson, skipstjóri á Barða, var ánægður með túrinn. „Þetta var þægilegur túr bæði hvað varðar veiðar og veður. Það tók einungis þrjá sólarhringa að fá í bátinn og það var blíða á miðunum lengst af. Við fengum 12 tíma brælu en hún hindraði ekki veiðarnar. Veiðisvæðið var suðaustur af Færeyjum. Við tókum sex hol í túrnum og veiðin var mest í upphafi. Í fyrsta holi fengum við 400 tonn eftir sjö tíma en í lokin fengum við 300 eftir fimmtán tíma. Fiskurinn sem þarna fæst er feitur og fínn og hlýtur að vera gott hráefni til vinnslu. Nú taka menn tvo til þrjá daga í að skipta um togvíra og yfirfara veiðarfæri svo allt verði klárt til að hefja veiðar eftir áramótin. Að því loknu munu menn njóta hátíðarhaldanna til hins ítrasta,” sagði Theodór.
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, lét vel af aflabrögðunum. „Það var rótargangur í veiðunum. Þetta var hálfgert mok. Það hefur oft aflast vel á þessum árstíma í færeysku lögsögunni. Við fengum aflann á fjórum sólarhringum sem er býsna gott. Holin voru sex talsins og það var yfirleitt togað í 10-12 tíma. Stærsta holið var 670 tonn en þau voru flest um 500 tonn. Að löndun lokinni taka við verkefni á borð við að skipta um togvíra og dytta að ýmsu um borð. Það verður allt að vera klárt þegar látið verður úr höfn eftir hátíðarnar. Nú fylgjast menn spenntir með loðnuleit,” sagði Tómas.
Síðustu fréttir af kolmunnamiðunum eru þær að Vilhelm Þorsteinsson EA er lagður af stað í land með fullfermi og Börkur NK er á góðri leið með að fylla.