Veiðar á norsk-íslenskri síld austur af landinu ganga afar vel. Samfelld vinnsla er í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og er hráefnið eins gott og hugsast getur, að því er fram kemur á heimasíðu Síldarvinnslunnar.. Lokið var við að landa 1.440 tonnum úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í nótt og þá var Börkur NK kominn með 1.270 tonn. Beitir NK hélt til veiða um hádegi í gær og var hann að taka síðasta holið í morgun. Verður Beitir kominn til hafnar áður en löndun lýkur úr Berki.

1.270 tonn í fimm holum

Rætt var við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki, og hann spurður hvort þetta væri ekki þægilegur veiðiskapur.

„Jú, þetta er eins gott og það getur verið. Við komum til hafnar um miðnætti með 1.270 tonn sem fengust í fimm holum á Héraðsflóanum en venjulega er dregið í 3-4 tíma. Við enduðum norðarlega á Héraðsflóanum og þá voru um 60 mílur til hafnar í Neskaupstað. Síldin sem fæst þarna er stór og falleg og hún hlýtur að vera topphráefni fyrir vinnsluna. Þetta er mest 380-400 gramma síld. Hér er um að ræða algeran lúxusveiðiskap; það er stutt að fara, frábært veður og góður afli. Þá er hráefnið ekki gamalt þegar það er tekið til vinnslu – það er í reynd eins ferskt og gott og hugsast getur. Við erum að skjótast út í sólarhring og síðan er legið í landi í fjóra – fimm daga þar til haldið er í næsta túr. Þetta er ótrúlega þægilegt og við getum svo sannarlega verið glaðir á meðan síldin heldur sig á þessum slóðum en það er ekkert sjálfgefið,“ segir Hálfdan.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, segir að vinnslan á síldinni gangi afar vel. „Hráefnið er eins og best verður á kosið enda er síldin veidd hér í kálgarðinum. Um er að ræða stóra og fallega síld sem hentar vel til vinnslu. Við erum að framleiða roðlaus flök, samflök og síðan er einnig heilfryst. Þetta gengur sannast sagna eins og í sögu,“ segir Jón Gunnar.