Samkvæmt nýlegri athugun er talið að 19% af öllum heimsaflanum komi úr ólöglegum veiðum. Verðmæti þessa fiskafla er metið á 10 milljarða evra eða sem svarar rúmlega 1.600 milljörðum íslenskra króna.
Þetta kom fram í ræðu Maríu Damanaki sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins nýlega.
,,Við höfum því miður sjálf stutt við þessa iðju því talið er að 16% af innflutningi ESB á sjávarafurðum á ári eða sem svarar meira en einum milljarði evra [jafnvirði 162 milljarða ISK] komi úr ólöglegum veiðum,” sagði Damanaki.
Sjávarútvegsstjórinn sagði að ESB yrði að sjá til þess að útgerðarfyrirtæki sem stunduðu ólöglegar veiðar fengju ekki styrki úr sjóðum sambandsins. Þetta ætti einnig að gilda um útgerðir í eigu íbúa ESB sem gerðu út undir fánum ríkja þriðja heimsins.
Damanaki sagði að ólöglegar veiðar væru ein mesta ógnunin við fiskistofna heimsins. Ein leið til þess að stemma stigu við þessum ófögnuði væri að taka upp vottunarkerfi fyrir fiskveiðar og fiskafurðir sem næði til alls heimsins.