„Hlutverk Matís í þessu alþjóðlega verkefni snýr að okkar sérþekkingu á virðiskeðju sjávarafurða og mati á gæðum og stöðugleika afurða með skynmati og ýmsum efnamælingum,“ segir Hildur Inga Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís.

Framkvæmdar voru veigamiklar tilraunir hjá Matís þar sem hraðvirkar mæliaðferðir sem nýta nær-innrauða litrófsgreiningu voru prófaðar og möguleiki á notkun þeirra til að áætla ferskleika þorsks metinn. Samhliða var þróað app sem mögulegt verður að tengja við þessar tæknilausnir sem prófaðar voru og nota til þess að fylgjast með ferskleika fisks alla leið frá framleiðslu til söluaðila eða neytanda eftir atvikum.

Fyrstu niðurstöður lofa góðu

„Það er von okkar sem komum að verkefninu að notkun á hraðvirku ferskleikamat á ferskum fiski geti nýst mörgum innan virðiskeðjunnar bæði framarlega í henni til að sannreyna og staðfesta ferskleika við t.d. móttöku og seinna í keðjunni. Með þeim hætti mætti til t.d. forgangsraða fiski í sölu eftir ferskleika, koma í veg fyrir matarsóun og til að vera viss um að neytandi fái í hendurnar fisk sem uppfyllir staðla um ferskleika. Þó svo að þeir sem lifa og hrærast í fiski alla daga innan vinnslu og veiða þekki mjög vel einkenni ferskleika þá á það sama ekki endilega við um t.d. starfsfólk verslunarkeðja og almenna neytendur sem vilja samt vera vissir um að varan sem þeir kaupa sé af ásættanlegum gæðum,“ segir Hildur Inga.

REIMS og TraCod verkefnin snúast um það að leita leiða til að spá fyrir um ákveðna hluti með notkun tækjabúnaðar. Markmið REIMS er að greina á milli fisktegunda ásamt því að sannreyna hvort fiskur sé ferskur eða hafi verið frystur. TraCod snýst um þróun tækni til að áætla ferskleika fisks.

Sú greiningartækni sem REIMS byggir á er nokkuð flókin og tækjabúnaður mjög dýr. Einungis vel þjálfaðir rannsóknarstofu starfsmenn vinna með slíkan búnað og því er hann ekki aðgengilegur iðnaðinum eða neytandanum.

Nú er verið að ganga frá lokaskýrslum í TraCod verkefninu og verða niðurstöður kynntar á næstu vikum. Hildur Inga segir að fyrstu niðurstöður sýni að það er vel þess virði að halda áfram þessari vinnu og meta hvort mögulegt sé að útvíkka þau módel sem þróuð voru á undanförnu ári. Stefnir hópurinn á að halda vinnunni áfram með von um að mögulegt verði að búa til tól sem getur nýst sem flestum innan virðiskeðju sjávarafurða.

„Búnaðurinn sem prófaður er í verkefninu er handhægur, tækið er lítið og létt, fer vel í hendi og er hægt að tengja beint við tölvu, spjaldtölvur eða farsíma í gegnum appið sem þróað. Þess vegna verður hægt að nota það beint með snjallsíma sem gerir mælingar einfaldar og aðgengilegar í nútíma samfélagi.“

Hraðvirk aðferð við tegundargreiningar

Matís hefur einnig tekið þátt í rannsóknar- og nýsköpunarverkefninu REIMS sem miðar að því að þróa hraðvirka aðferð við tegundargreiningar á fiski til að koma upp um tegundasvindl á skjótan og hagkvæman hátt.

Sæmundur Sveinsson, fagstjóri hjá Matís, segir að hingað til hafi verið notast við erfðafræðilegar aðferðir til að rannsaka og sporna gegn ætluðu tegundasvindli. Sú greiningaraðferð sé hins vegar bæði tímafrek og kostnaðarsöm.

Vörusvik á sjávarfangi eru gríðarlegt vandamál um allan heim, en talið er að um þriðjungur alls fisks sem seldur er sé borinn fram undir fölsku flaggi. Tegundarsvik eru þar algengust, þar sem ódýrari tegundir eru seldar sem dýrari. Sem dæmi má nefna að þorski er gjarnan skipt út fyrir annan ódýrari hvítfisk til þess að auka gróða framleiðenda, dreifingaraðila, smásala eða veitingastaða, á sama tíma og neytendur eru blekktir. Enn fremur er algengt að uppþíddur fiskur sé seldur sem ferskur.

Greinir ferskan fisk frá frystum

REIMS verkefnið er styrkt af evrópska samkeppnissjóðnum EIT Food. Aðferðin felst í því að sýni er tekið og rafstraumi er hleypt á það, en við þann bruna myndast gas sem fer í gegnum massagreini sem aðgreinir tegund sýnisins. Einnig er verið að skoða hvort nota megi REIMS aðferðina til þess að greina hvort fiskur hefur verið frystur og afþíddur fyrir sölu. Verkefnið er leitt af Queens University í Belfast á Norður-Írlandi og aðrir samstarfsaðilar verkefnisins eru ólífuolíuframleiðandinn Acesur á Spáni og belgíska matvælakeðjan Colryut, en tæknin er einnig að koma vel út við að greina gæði ólífuolíu.

Í ljós hefur komið að með REIMS er á einfaldan hátt hægt að greina þorsk frá öðrum hvítfisktegundum, en tilraunir hafa verið gerðar á þorski, ýsu, keilu, löngu og beitarfiski (tilapia og pangasius). Einnig var gerð fjögurra vikna tilraun á þorski sem geymdur var í frysti við -20°C og í ljós kom að hann mátti vel aðgreina frá ferskum þorski með REIMS aðferðinni. Auk þess var þorskur sem hafði verið uppþíddur eftir tvífrystingu borinn saman við þorsk sem hafði verið frystur einu sinni og fram kom augljós munur í niðurstöðunum með aðferðinni.

Sæmundur segir að um stóran og flókinn tækjabúnað sé að ræða og því ekki ljóst hvort notagildið sé jafnmikið og vísindalegt gildi rannsóknarinnar. Í gangi eru önnur verkefni sem miða að því að leysa sama vandamál með einfaldari tækjabúnaði.

Umfjöllunin birtist fyrst í Nýsköpunarblaði Fiskifrétta 18. febrúar sl.