Stór tækifæri eru sögð framundan sem geta fært Íslendingum dýrmæta reynslu tengda raftengingum til skipa og notkun vistvænna orkugjafa í höfnum og um borð í skipum. Þeirra á meðal er koma nýrrar Vestmannaeyjaferju, smíði nýs hafrannsóknaskips og uppbygging í ferjuhöfnum í Vestmannaeyjum og á Seyðisfirði.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu um orkuskipti í íslenskum höfnum. Skýrslan er unnin af Hafinu öndvegissetri og Íslenskri nýorku í samstarfi við Faxaflóahafnir.

Segir í skýrslunni að Ísland geti nýtt þau tækifæri sem liggja í skipaútgerð og ferjurekstri til að innleiða og sannprófa nýja tækni hér á landi. Þetta sé mikilvægt til að afla þekkingar og reynslu hér innanlands sem nauðsynleg er til að fýsilegt verði fyrir einkafyrirtæki að taka upp og nýta þessa tækni við íslenskar aðstæður. Afla þurfi þessum lausnum brautargengi innanlands og tryggja að hafnastarfsmenn og áhafnir skipa þekki búnaðinn, sjái kosti við notkun hans og kunni með hann að fara þannig að vel nýtist.

Enn fremur sé mikilvægt að stjórnvöld stigi fram í vali á vistvænni tækni umfram hefðbundna tækni er nýtir jarðefnaeldsneyti. Mikilvægt sé að auka núverandi nýtingu þeirra innviða sem fyrir eru og efla þá, þar sem þarf, til að mæta þörfum skipaflotans.

Í þessu samhengi eru gerðar nokkrar tillögur af skýrsluhöfundum fyrir stjórnvöld þar sem talin eru nærtæk tækifæri til innleiðingar á vistvænni tækni tengdum skipum og höfnum sem heyra undir hið opinbera.

Rafdrifin ferja

Von er á nýrri Vestmannaeyjaferju til landsins hvað úr hverju. Ferjan verður að fullu rafdrifin og hlaðin bæði í Landeyjahöfn og Vestmannaeyjum.

„Ný Vestmannaeyjaferja verður fyrsta stóra skipið á Íslandi sem gengur fyrir rafmagni frá landtengingu. Með komu skipsins í íslenska skipaflotann mun skapast dýrmæt innlend þekking og reynsla um hleðslu og notkun rafhlaðna um borð í skipi. Mikilvægt er að reynslu af notkun ferjunnar og hleðslubúnaðar í landi verði safnað, hún sett fram og kynnt, þannig að nýta megi og yfirfæra hana á aðrar ferjur sem og önnur almenn skip,“ segir í skýrslunni en jafnframt að skoða ætti rekstur annarra ferja á vegum íslenska ríkisins með tilliti til mögulegrar rafvæðingar eða innleiðingar á innlendu, umhverfisvænu eldsneyti.

Er vísað til þess í aðgerðaáætlur stjórnvalda í loftslagsmálum er snýr að orkuskiptum í ferjum í reglubundum rekstri.

Sóknarfæri í nýju skipi

Annað tækifæri til að þoka málum áfram er varðar nýja tækni og rafvæðingu hafna er koma nýs hafrannsóknaskips sem Alþingi hefur fallist á að verði byggt á næstu árum fyrir Hafrannsóknastofnun.

„Smíði skipsins er sóknarfæri. Búa má þetta skip nýrri tækni og tryggja að umhverfisáhrif þess verði í algjöru lágmarki um leið og nýttar verði lausnir sem styðja við framgang innlends, umhverfisvæns eldsneytis og umhverfistækni. Hér er tækifæri fyrir stjórnvöld til að reyna nýja en þó sannreynda vistvæna tækni á borð við vélar sem ganga fyrir eldsneyti sem framleitt er hérlendis á umhverfisvænan hátt, með umhverfisstjórnun ásamt orkunýtni- og eldsneytissparnaðarkerfum,“ segir í skýrslunni.

Með þessu er talið að megi sýna fram á notagildi tækninnar og sannreyna hana við íslenskar aðstæður og í samstarfi við íslenskan sjávarútveg. Með slíku fordæmi mætti hraða innleiðingu þessarar tækni inn í íslenska skipaflotann, efla innlenda tækni og þróun og uppfylla ströngustu umhverfiskröfur.

Sem allra fyrst

Hefja þarf undirbúning að háspennutengingum í höfn á Íslandi sem allra fyrst. Afla þarf þekkingar og reynslu á tengingum af þessari stærðargráðu og er mikilvægt að það gerist þar sem umferð skipa er mikil og reglubundin, þannig að sem mest nýting náist á reynslutíma.

Skýrsluhöfundar telja sóknarfæri liggja í nýjum hafnargarði sem er í smíðum í Sundahöfn í Reykjavík. Þar megi koma upp, prófa og fá reynslu á háspennutengingar til stærri flutningaskipa og umgengni við þær. Á þessari reynslu má svo byggja, þegar unnið er að frekari uppbyggingu háspennutenginga í höfnum landsins. Mikilvægt sé að náið samstarf verði við skipaeigendur við slíka uppbyggingu þannig að innviðir verði nýttir sem best og áhrif uppbyggingarinnar þannig mest.

Mengun situr föst

Jafnframt þarf undirbúning að háspennutengingum í ferjuhöfn fyrir millilandasiglingar, segir í skýrslunni. Þar mætti byggja á reynslu af hleðslutengingum fyrir nýja Vestmannaeyjaferju í Landeyjahöfn og Vestmannaeyjum.

„Hvað varðar reglubundnar, alþjóðlegar komur farþegaskipa má nefna innviði á Seyðisfirði. Þar eru landfræðilegar aðstæður þannig að loft mengað af útblæstri skipa getur setið fast, milli fjalla umhverfis fjörðinn og yfir Seyðisfjarðarkaupstað. Ferjuhöfnin á Seyðisfirði liggur innst í firðinum, í miðjum bænum. Norræna kemur vikulega til Seyðisfjarðar og liggur við bryggju í tvær klukkustundir frá 13.júní til 23.ágúst en annars í 35 klukkustundir við bryggju í hverju stoppi, í 50 vikur á ári. Á árinu 2018 voru komur skemmtiferðaskipa 56 (28 skip), heildarfjöldi um borð var 43.726 manns.“

Sú hugmynd er viðruð að leita mætti eftir samstarfi við Smyril Line, útgerð Norrænu, um landtengingar fyrir ferjuna á Seyðisfirði. Með því mætti ná fram góðri nýtingu á búnaði fyrir háspennutengingar, safna reynslu og tryggja rekstaröryggi búnaðarins og í framhaldi mætti bjóða uppá eða gera kröfu um að önnur skip nýttu landtengingu.

„Áframhaldandi uppbyggingu landtenginga fyrir stór farþegaskip/skemmtiferðaskip um landið mætti svo byggja á reynslu frá Seyðisfirði.“