Með samanburði á ljósmyndum hefur nú í fyrsta sinn verið staðfest að a.m.k. þrír háhyrningar ferðuðust á milli Íslands og Noregs. Þetta er fyrsta sönnun fars háhyrninga á milli Íslands og Noregs, ef frá er skilin kvikmyndastjarnan Keiko.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orca Guardians Iceland og Náttúrustofu Vesturlands.
Þar segir að Emma Luck frá samtökunum Happywhale, sem með þátttöku almennings sérhæfa sig í hvalarannsóknum, hafði samband við Marie-Thérèse Mrusczok frá Orca Guardians Iceland/Náttúrustofu Vesturlands fyrir skömmu og deildi með henni ljósmyndum sem ljósmyndararnir Andrew Peacock and Javier Cotin tóku nærri Rørvik í Noregi 11. júní sl.
Emmu tókst að para tvo af háhyrningunum sem myndirnar sýndu við myndir úr ljósmyndagagnagrunni um háhyrninga við Snæfellsnes, sem Orca Guardians tók saman og gaf út í samvinnu við Náttúrustofu Vesturlands.
Langt ferðalag
Í gagnagrunninum eru ljósmyndir sem sýna einstaklingsbundin einkenni háhyrninganna, þ.e. lögun bakhyrnu ásamt lögun og för í söðulblettinum, sem er grátt svæði neðan og aftan við bakhyrnuna.
Þegar Marie-Thérèse bárust fleiri ljósmyndir frá Noregi tókst henni að para þriðja einstaklinginn, sem var ljósmyndaður við Snæfellsnes í apríl 2022.
Háhyrningarnir þrír sem um ræðir hafa sést á þremur svæðum við Ísland, þ.e. á Faxaflóa, á Skjálfanda og við Snæfellsnes. Hvalirnir þrír hafa lagt að baki leiðina til Noregs (loftlína um 1.600 kílómetrar) á 45 dögum eða minna.
„Þetta er fyrsta dæmi um háhyrninga sem fara á milli Íslands og Noregs, ef frá er skilinn Keiko, háhyrningurinn úr kvikmyndinni Free Willy, en honum var sleppt við Vestmannaeyjar og synti hann sjálfur alla leið til Noregs, segir í umfjölluninni en nú er kannað hvort fleiri dæmi finnist um samsvörun á háhyrningamyndum á milli landanna tveggja.
Þetta eru þó ekki fyrstu dæmin um ferðir háhyrninga á milli Íslands og annarra landa, því nú þegar hafa Orca Guardians Iceland staðfest ferðir 29 einstaklinga á milli Snæfellsness og Skotlands. Þar fyrir utan fóru fjórir einstaklingar frá Íslandi til Ítalíu, þar af synti einn úr þeim hópi alla leið til Líbanon og Ísrael. Allar ofangreindar uppgötvanir hefðu ekki verið mögulegar án mikils og vaxandi tengslanets rannsakenda, hvalaskoðunarfyrirtækja og hvalaáhugafólks.
Öflugt verkfæri
Gagnagrunnurinn umræddi inniheldur 987 einstaklinga og er samvinnuverkefni Orca Guardians Iceland og Náttúrustofu Vesturlands. Greindar hafa verið mörg hundruð þúsund ljósmyndir sem m.a. voru teknar í hvalaskoðunarferðum við Snæfellsnes.
Marie-Thérèse, sem byggði gagnagrunninn upp, bætti jafnframt við ljósmyndum sem hún fékk frá nokkrum öðrum svæðum við Ísland, þar á meðal Steingrímsfirði, Skutulsfirði, Látrabjargi, Skjálfanda, Borgarfirði eystri, Hvalfirði, Grindavík, Faxaflóa og Vík. Við það hækkaði heildarfjöldi mismunandi einstaklinga í þessari skrá upp í 987. Þetta er mikil aukning frá fyrri útgáfu sem birt var árið 2017 og innihélt 322 einstaklinga.
Þessi skrá yfir einstaka háhyrninga er afrakstur margra ára vinnu og er notuð sem verkfæri til að stuðla að verndun og langtímarannsóknum á íslenska háhyrningastofninum. Hún er undirstaða þeirra rannsókna sem nú standa yfir og verður haldið áfram næstu ár.