Ferðamenn eru ánægðastir með gæði sjávarafurða á íslenskum veitingastöðum, samkvæmt könnun Seafood from Iceland.

Erlendir ferðamenn lýstu mestri ánægju með gæði sjávarafurða þegar þeir eru beðnir að meta þann mat sem þeir nutu á ferð sinni um landið. 78% aðspurðra ferðamanna sem neyttu fiskmetis meðan þeir dvöldu hér á landi gáfu því einkunnina 8-10 (af 10 mögulegum). Til samanburðar gáfu um 50% matnum almennt hér á landi sambærilega einkunn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun sem framkvæmd var af Maskínu fyrir Íslandsstofu meðal erlendra ferðamanna núna í sumar.

Matur og matarmenning íslensku þjóðarinnar virðist ekki vega þungt þegar erlendir gestir taka ákvörðun um að heimsækja landið. Einungis 15% segja að matur og matarmenning hafi haft mikil áhrif á ákvörðun þeirra en 85% segja það hafa haft lítil áhrif. Erlendir ferðamenn eru líklegastir til að nefna sjávarafurðir (59%) þegar þeir eru spurðir hvaða matvæli þeir tengja helst við áfangastaðin, 53% nefndu lambakjöt og 40% nefndu skyr. Önnur matvæli voru nefnd sjaldnar.

Vannýtt tækifæri

Björgvin Þór Björgvinsson, fagstjóri sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu segir að lítið sé almennt vitað um neyslu og viðhorf erlendra ferðamanna til Íslenskra sjávarafurða. Könnunin hafi fyrst og fremst verið gerð til þess að afla frekari gagna.
„Niðurstöður gefa til kynna að það séu vannýtt tækifæri þegar kemur markaðssetningu íslenskra matvæla gagnvart erlendum ferðamönnum. Það mætti til dæmis færa rök fyrir því að erlendir gestir líti ekki á íslenskan mat sem mikilvægan hluta af heildar upplifun áfangastaðarins. Við sjáum líka að það er svigrum til að auka neyslu erlendra gesta á íslenskum sjávarafurðum en 48% sögðust hafa neytt sjávarafurða einu sinni eða aldrei meðan þeir dvöldu hér á landi í sumar.“

Könnunin var framkvæmd í tengslum við markaðsverkefnið „Seafood from Iceland“ sem er samstarfsverkefni Íslandsstofu, SFS og um 29 fyrirtækja í Íslenskum sjávarútvegi. Í sumar var keyrð auglýsingaherferð undir yfirskriftinni „Icelandic Nature, It Goes Great with Fish“ þar sem erlendir ferðamenn voru hvattir til að borða fisk sem oftast meðan þeir dvelja hér á landi.
„Við vitum ekki til þess að slík auglýsingaherferð hafi verið framkvæmd hér á landi áður. Við lærðum mjög mikið á þessu ferli en auk þess að birta auglýsingar vorum við í samstarfi við yfir 100 veitingahús um allt land og reyndum að vekja athygli ferðamanna á hversu víða er hægt að nálgast hágæða íslenskar sjávarafurðir. Vonandi verður svo framhald á þessari vinnu á næsta ári,“ sagði Björgvin enn fremur.