Þriðjudagskvöldið 12. febrúar sl. var haldinn stofnfundur Félags skipa- og bátaáhugamanna  í sjóminjasafninu Víkinni við Grandagarð í Reykjavík. Um fimmtíu manns mættu á fundinn og skráðu sig í félagið, en auk þeirra höfðu rúmlega hundrað manns skráð sig í félagið á netinu þegar tilkynnt var um fyrirhugaða stofnun þess mánuði fyrr.

Tilgangur félagsins er að efla áhuga og umræðu um skip og báta af öllum stærðum og gerðum, flytja kynningarefni, fræðsluefni og stunda sögulegar rannsóknir tengdar skipum og siglingum í víðu samhengi.

Eftir formlega stofnun félagsins flutti Hilmar Snorrason erindi sem hann kallaði Eyja háð siglingum og fjallaði hann þar um siglingar til og frá Íslandi frá örófi alda og til þessa dags.
Ætlunin er að halda félagsfund í Víkinni fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði yfir vetrartímann þar sem félagsmenn kynna hugðarefni sín sem og að opna heimasíðu með ýmsu fróðlegu efni um skip, báta og siglingar.