,,Það var mjög rólegt yfir veiðinni í nótt en við erum að vonast til þess að karfinn fari að vakna til lífsins nú þegar líður að hádegi. Við erum í þriðja holi á Fjöllunum og það kemur í ljós í hádeginu hver árangurinn verður,“ sagði Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, í viðtali á vef HB Granda er rætt var við hann í morgun.

Helga María fór frá Reykjavík í gærmorgun eftir velheppnaða veiðiferð á Vestfjarðamið og er tal náðist af Heimi var hann að ljúka við að hlusta á veðurspána. Spáð var suðaustan 8-15 metrum á sekúndu á Faxaflóamiðum í dag og 13-18 metrum á morgun.

,,Veðrið er góðu lagi. Við reyndum við ufsa í nótt en nú er það karfinn. Það er ekki hægt að segja að það sé mikil umferð hér á Fjöllunum, þessum hefðbundnu heimamiðum ísfisktogara HB Granda, því hér er ekkert annað skip að veiðum í 12 mílna radíus. Næsta skip er Brimnes RE en það er austur í Skerjadúpi,“ segir Heimir en hann lætur vel af síðustu veiðiferð skipsins á Vestfjarðamið þrátt fyrir tvær hörkubrælur.

,,Það var góð karfaveiði í hinu svokallaða næturhólfi út af Víkurálnum en annars var veiðin mjög blönduð. Við bárum okkur eftir ufsa og á svæðinu frá Halanum og austur í Þverál var blönduð ufsa- og þorskveiði. Ætli við höfum ekki verið með um 160 tonn í veiðiferðinni og uppistaðan í aflanum var karfi, ufsi og þorskur. Menn eru alltaf að bíða eftir góðu ufsaskoti og það hlýtur að koma að því fyrr en síðar,“ sagði Heimir Guðbjörnsson.