Alls voru 7 færeyskir línu- og handfærabátar að veiðum í íslenskri lögsögu í september mánuði. Heildarafli skipanna var 450 tonn. Mest var um löngu í aflanum, 121 tonn og þorskaflinn var 106 tonn. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.

Á níu fyrstu mánuðum ársins hafa færeysk skip veitt tæp 4.898 tonn af botnfiski í íslenskri lögsögu. Á sama tíma í fyrra var aflinn heldur meiri eða tæp 5.296 tonn. Heildarbotnfiskaflinn er því rúmlega 8% minni í ár en á síðasta ári. Þorskafli færeysku skipanna er kominn í 1.025 tonn miðað við 1.183 tonn á sama tíma í fyrra en heimild færeyskra skipa á yfirstandandi ári eru 1.200 tonn.