Útgerðarfélag uppsjávarskipsins Christian í Grótinum í Klaksvík í Færeyjum hefur keypt niðursuðuverksmiðju í Þýskalandi sem vinnur makríl í dósir.
Forsvarsmenn félagsins segja að þeir hafi fyrst haft í huga að byggja verksmiðju í Klaksvík til að vinna hráefni frá skipum félagsins, Christian í Grótinum og Norðborg. Hins vegar sé 25% tollur á niðursoðnum makríl sem fluttur er inn til ESB-landa. Því hafi þessi leið verið valin en enn sé þó stefnt að því að reisa verksmiðju í Færeyjum þótt síðar verði.
Keyptar voru tvær verksmiðjur í Þýskalandi úr þrotabúi Larsen Seafood. Makrílverksmiðjan er í Flensborg en einnig var keypt verksmiðja í Bremerhaven sem vinnur ufsa. Í Flensborg vinna 160 manns en í Bremerhaven 50 manns.
Verksmiðjan í Flensborg framleiðir um 45 milljónir dósa með makríl á ári en ætlunin er að auka framleiðsluna allt upp í 80 milljónir dósa. Í Bremerhaven er unnið úr um 3 þúsund tonnum af alaskaufsa og ufsa á ári.