Rússar og Færeyingar hafa undirritað nýjan samning um gagnkvæmar veiðiheimildir í lögsögum ríkjanna tveggja. Samningurinn gildir fyrir árið 2015.

Færeyingar fá að veiða 19.500 tonn af þorski og 1.800 tonn af ýsu í lögsögu Rússlands ásamt 900 tonnum af flatfiski og 5.000 tonnum af rækju.

Í staðinn fá Rússar að veiða 80.000 tonn af kolmunna og 14.500 tonn af makríl í færeyskri lögsögu. Meðafli af síld á makrílveiðunum takmarkast við 10.000 tonn.

Þorskkvóti Færeyinga í Rússasjónum minnkar frá yfirstandandi ári en þó ekki um þau 10% sem heildarþorskkvótinn í Barentshafi minnkar um. Ýsukvótinn er óbreyttur milli ára, svo og flatfisk- og rækjukvótinn.

Rússar fá að veiða nokkru meira af kolmunna í færeyskri lögsögu á næsta ári en í ár en makrílkvótinn og meðaflinn af síld er óbreyttur.