Færeysk stjórnvöld tilkynntu í gær að makrílkvóti Færeyinga yrði 150.000 tonn á þessu ári. Í fyrra veiddu þeir 85.000 tonn sem var þrisvar sinnum meira en þeim var ætlað samkvæmt fyrri skiptingu úr stofninum.

,,Færeyingar voru eina veiðiþjóðin sem beið með að setja sér makrílkvóta þar til allar samningaleiðir væru reyndar. Hinar veiðiþjóðirnar tóku ekki tillit til Færeyinga þegar þær ákváðu kvóta sér til handa,” segir Jacob Vestergaard sjávarútvegsráðherra í samtali við færeyska útvarpið.

Ráðherrann segir að allir viðurkenni að makríllinn hafi breytt göngumynstri sínu og því sé grundvöllur fyrri samninga um nýtingu stofnsins brostinn. Samkvæmt honum fengu Færeyingar 5% heildaraflans en þeir hafa krafist þess að hlutur þeirra verði 15%.

Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur mælt með að heildarkvóti makríls á þessu ári fari ekki yfir 646.000 tonn. Nú er allar líkur á að veiðin fari upp í eina milljón tonna.