Þórhallur Arnórsson, forsvarsmaður fyrirtækisins Microwhale ehf. sem nýverið hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Bárusjóði Matvælasjóðs, segir styrkinn verða notaðan til að kanna möguleikana á því að færa fiskkaupendur í Kína og Asíu í heild nær seljendum hér heima á Íslandi.

„Við erum á frumstigum með þetta,“ segir Þórhallur. „Fyrsti fasi verkefnisins er að fylgja eftir og sannreyna tilgátu sem við erum með um hvaða möguleikar eru til staðar og hvaða vandamál er hægt að leysa til þess að færa seljendur og kaupendur nær hvern öðrum. Og greina hvernig kaupendahópurinn skiptist og hvernig þessu er komið á milli og hvernig hægt er að setja þetta allt inn í einn aðgengilegan vettvang sem síðan getur verið miðja samtalsins.“
Þórhallur segir aðstandendur Microwhale hafa nokkurn bakgrunn í uppboðum og að unnið verði út frá því fyrirkomulagi. „Við erum að skoða uppboðsfyrirkomulag á fiskafurðum. Það er eðlilegt verðmyndunartól og mjög álitleg leið til að opna markaðinn,“ segir hann.
Risavaxinn markaður og ört vaxandi kaupgeta
Að sögn Þórhalls er markaðurinn í Asíu risavaxinn. „Hann er gígantískur og fer stækkandi. Og þar eru kannski aðeins meiri tækifæri og opnanir heldur en eru kannski á hinum mörkuðunum sem menn hafa verið að þróa í áratugi. Kaupgetan þar er að aukast mjög hratt og mikið og þörfin er að rísa líka mjög hratt,“ segir hann.
Eitt af því sem Microwhale hyggst skoða segir Þórhallur verða nákvæmlega hvaða afurðir frá Íslandi eigi erindi til Asíu.
„Við ætlum að skoða hver eftirspurnin er og kanna hvernig er hægt að nálgast hana og leiða aðila saman,“ segir Þórhallur og bendir á að þótt Íslendingar kunni að meta þorsk þá gildi það ekkert endilega 0um alla aðra. „Þannig að það er líka verið að gera dálitla úttekt á því; hver eftirspurnin er og hvaða eftirspurn er að vaxa.“
Niðurstaða fyrir áramót
Þórhallur segir að auk þess sem hann og samstarfsmaður hans komi að Microwhale hafi þeir aðgang að fólki sem geti veitt ráðgjöf varðandi markaðina og ýmis tæknimál.
„Við erum að púsla þessu aðeins saman og sjá hvort við getum haldið áfram með verkefnið. Stundum þegar þú skoðar hlutina betur kemstu að því að þetta er kannski of stór blokk að byggja og við förum með opin augu inn í verkefnið. En næsti fasi yrði þá að hrinda þessu í framkvæmd,“ segir Þórhallur, sem kveðst reikna með að skila Matvælasjóði niðurstöðu fyrir áramót.