.Samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar var eitt norskt skip, Kvannöy, á loðnuveiðum á Skjálfanda nú síðdegis í dag, föstudag, og hafði það tilkynnt um 800 tonna afla. Hin skipin voru í höfn hérlendis þar sem þau hafa landað síðustu daga. Þeirra á meðal eru Ingrid Malaja sem kom í gærkvöldi til Fáskrúðsfjarðar með 750 tonn til frystingar.

Veiðitíma norsku loðnuskipanna átti að ljúka síðasta laugardag en íslenska sjávarútvegsráðuneytið framlengdi hann um eina viku þannig að norsku skipin verða að óbreyttu að hætta veiðum á miðnætti á morgun, laugardag.  Á vef samtaka norskra útvegsmanna í dag var haft eftir norska sjávarútvegsráðuneytinu að engin ný lokadagsetning hefði verið ákveðin en sú frétt var síðan horfin af vefnum nokkru síðar, hvernig sem á því stendur. Fiskifréttir náðu ekki í neinn í sjávarútvegsráðuneytinu íslenska til þess að fá botn í málið.

Á vef norska síldarsamlagsins höfðu alls 2.800 tonn af Íslandsloðnu af norskum skipum verið færð til bókar síðdegis í dag og þá voru eftirstöðvar af leyfilegum kvóta Norðmanna í íslenskri lögsögu 37.771 tonn. Að óbreyttu er útlit fyrir að íslenski skipin muni fá talsverða viðbót við eigin veiðiheimildir að þessu sinni með því að yfirtaka óveiddan kvóta Norðmanna..