Í gær var undirritaður samningur Færeyinga og Evrópusambandsins um gagnkvæm fiskveiðiréttindi fyrir árið 2015. Samkvæmt honum fá Færeyingar að veiða 40.000 tonn af makríl í lögsögu ESB og skip frá ESB hafa sömu réttindi í lögsögu Færeyja.

Þrátt fyrir að skoskir og hjaltlenskir útgerðarmenn hefðu beitt yfirvöld fiskveiðimála í Brussel þrýstingi um að minnka þann hlut sem færeysk skip mega veiða af makríl í ESB-lögsögunni varð niðurstaðan sú að halda honum óbreyttum.

Hins vegar minnkar heildarkvóti makríls um 15% milli ára og því verður samsvarandi lækkun á því magni makríls sem skip frá Færeyjum og ESB mega veiða í viðkomandi lögsögum.

Að auki var samið um að hvor samningsaðili mætti veiða 25.000 tonn af kolmunna hjá hinum. Því til viðbótar fá Færeyingar 15.000 tonna kvóta í ESB-lögsögunni, þannig að heild mega þeir veiða 40.000 tonn þar á næsta ári.

Frá þessu er skýrt á vef færeyska útvarpsins.