Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu, segir að margt bendi til þess að framboð þorsks úr Barentshafi dragist saman um 30% á næsta ári miðað við yfirstandandi ár. Þetta muni styðja við hátt fiskverð á alþjóðamörkuðum.
Bretland hefur verið mikilvægasti markaður Norebo fyrir þorsk. 6% tollur hefur verið á þorsk- og ýsuafurðir á öll lönd utan Evrópusambandsins og EES. Sturlaugur segir að bresk stjórnvöld hafi fyrst kynnt áform sín um 35% viðbótartoll á rússneskar sjávarafurðir í apríl síðastliðnum. Fiskiðnaðurinn í Bretlandi gagnrýndi fyrirhugaða tollahækkun harðlega enda stendur innflutningur undir um 90% af allri þorskneyslu í Bretlandi, þar af kemur á bilinu 30-40% frá Rússlandi. Viðbótartollurinn kom svo til framkvæmdar 19. júlí sl. og ber þorskur og ýsa frá Rússlandi því 41% toll núna en þessar sömu afurðir eru tollfrjálsar frá löndum ESB og EES.
Markaðurinn samþykkti verðhækkanirnar
„Strax og tilkynnt var um tollinn í apríl greip Norebo til þess ráðs að hækka verð næstum um það sem nam tollahækkuninni. Hugsanlegt er að Norebo þurfi að hækka verð enn frekar en að einhverju leyti höfðum við búið okkur undir tollahækkunina með því að hækka verðið strax í vor. Þetta var hressileg hækkun en markaðurinn tók við henni,“ segir Sturlaugur.
Hann bætir við að eftirspurn eftir fiski frá öðrum en Rússum hafi aukist í kjölfar þessa og það hafi leitt til verðhækkana einnig hjá öðrum framleiðendum. Framboð af öðrum uppruna hafi þó ekki dugað til og breski markaðurinn því þurft að sætta sig við breytt verðumhverfi. Fiskverð hafi því hækkað á öllum markaðnum. Þetta hafi meðal annars leitt til verðhækkana á þjóðarréttinum fish&chips sem þykir í frásögur færandi því verð á þessum skyndibita hefur verið afar stöðugt í gegnum tíðina.
Verðleiðrétting á þorski?
„Á sama tíma verðum við að horfa á stóru myndina og ef við berum verð á þorski saman við til dæmis verð á laxi má með góðum rökum segja að þorskur sé ekki dýr vara. Fish&chips veitingamarkaðurinn hefur vanist tiltölulega lágu verði en þarf núna að aðlagast þessari breytingu. Þorskur er villtur hágæðafiskur og eftirspurnin eykst með hverju ári. Það er í raun ekkert sem segir að verð á honum núna sé of hátt. Menn geta jafnvel spurt sig hvort þeir hafi ekki verið að selja þorsk á of lágu verði í gegnum árin.“
Sturlaugur kveðst ekki sjá fyrir verðlækkanir á næstu misserum þótt erfitt sé að spá fyrir um þróunina. Staðan sé ekki ákjósanleg eins og hún er núna og í ljósi minnkandi kvóta í Barentshafi megi jafnvel búast við enn frekari þrýsting á verð.
Verðþrýstingur
„Það má búast við samdrætti í þorskkvóta í Barentshafinu á næsta ári um 10-15% en ákvörðun þess efnis verður endanlega tekin í október. Ef af væntanlegum samdrætti verður, þá mun hann koma til viðbótar við 20% samdrátt á þessu ári í þorski og 24% í ýsu. Einnig þarf að taka inn í myndina að í lok síðasta árs var 15% af þorskkvótanum í Barentshafi óveiddur og var hann færður yfir á yfirstandandi ár. Í árslok 2022 má búast við að búið verði að veiða upp aflamarkið fyrir yfirstandandi ár og það sem fært var frá árinu 2021 yfir á árið 2022. Það verður því enginn þorskkvóti fluttur yfir á árið 2023 og þegar væntanlegur niðurskurður er tekinn inn í myndina líka má búast við allt að 30% minna framboði á þorski úr Barentshafi á næsta ári miðað við yfirstandandi ár. Þetta mun styðja við verð á þorski eins og það er núna og jafnvel leiða til aukins þrýstings á verðhækkanir en á móti verðum við að bíða og sjá með almenna efnahagsþróun en þar eru náttúrulega blikur á lofti,“ segir Sturlaugur.
Aukin sala í Evrópu
Rússneski sjávarútvegsrisinn Norebo, eins og önnur sjávarútvegsfyrirtæki þar í landi, glímir við viðskiptahindranir í útflutningi á sjávarafurðum, jafnt til Bretlands sem og Bandaríkjanna og Kanada, sem settar hafa verið á í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Kristján Hjaltason, markaðs- og sölustjóri Norebo í Evrópu, segir að heimsmarkaðurinn sé „dínamískur“ og aukin sala á meginlandi Evrópu hafi vegið upp aðgangshindranir að markaði í Norður-Ameríku og ofurtollaumhverfi í Bretlandi
Rússnesk sjávarútvegsfyrirtæki flytja út mikið magn af hvítfiski til Evrópu og Bandaríkjanna; þorski, ýsu og ekki síst Alaskaufsa. Allt eru þetta tegundir sem eru mjög mikilvægar fyrir Evrópumarkað.
Rússar veiða um 1,7 milljón tonna upp úr sjó af Alaskaufsa sem fór að hluta til á Bandaríkjamarkað og að hluta til á Evrópumarkað. Stór hluti aflans fór einnig sem H&G fiskur í vinnslu í Kína og endaði sem flakaafurðir, ýmist í Bandaríkjunum eða Evrópu.
Tæplega helmingur af öllum þorski sem fór inn á fish&chips markaðinn í Bretlandi kom frá Rússlandi. Norebo er með stóran hluta af því.
„Salan á þessu ári hefur verið mjög góð og verð hefur verið hátt þegar horft er til samanburðar yfir lengri tíma.“ segir Kristján.
Bandaríkin og Kanada lokuð
Kristján segir óvissu framundan á neytendamarkaði einkum vegna hárrar verðbólgu, hækkandi vaxtastigs og hækkandi verðs á orku og mörgum afurðum. Fiskverð skeri sig ekki endilega úr hvað varðar verðhækkanir, það eigi við um nánast allt. Þess vegna sé erfiðara að spá fyrir um markaðina á síðari hluta ársins. Mikilvægt sé þó fyrir kaupendur Norebo að verðstöðugleiki verði sem mestur.
„Lokað var fyrir innflutning rússneskra sjávarafurða til Bandaríkjanna og Kanada síðastliðið vor. Á meginlandi Evrópu hafa engar breytingar orðið en á Bretlandi lagðist á 35% auka tollur sem kom til framkvæmdar í síðasta mánuði. Að öðru leyti eru minniháttar truflanir í flutningum og ekki er almennt bann á komu rússneskra flutningaskipa með fisk til evrópskra hafna. Stefnan hefur verið að hefta ekki innflutning á matvælum til Evrópu, þannig að í grunninn eru markaðir á meginlandi Evrópu og Bretlandi opnir.“
Kristján segir hugsanlegt í ljósi tollahaftanna á Bretlandi að fisksala Norebo þar dragist saman en aukist þess í stað á meginlandi Evrópu þar sem engar aðgangshindranir eru. Engar vísbendingar séu uppi um það að Evrópusambandið ætli að leggja tolla á rússneskan fisk eða hindra sölu á honum á annan hátt.
Verja verðlagið
„Fiskur frá Rússlandi er mikilvægt hráefni fyrir margar verksmiðjur í Evrópu. Það á sérstaklega við um fisk úr Kyrrahafinu eins og Alaskaufsa en Rússar eru með stærsta kvótann í heiminum á þeirri tegund. Alaskaufsi er mjög mikilvægt hráefni fyrir fiskréttaverksmiðjur í Evrópu sem framleiða úr honum fiskistauta og tilbúna rétti. Verksmiðjurnar eru mjög háðar fiski frá Rússlandi, hvort sem hann er frystur í blokkir út á sjó eða H&G fiskur sem hefur verið seldur til Kína til frekari vinnslu og kemur þaðan til Evrópu sem tvífryst vara. Á meginlandi Evrópu hefur verið tekin sú afstaða að leggja ekki stein í götu iðnfyrirtækja. Um leið er tekin sú afstaða að verja verðlagið í því verðbólguumhverfi sem er í Evrópu,“ segir Kristján.