Skip Eskju kláruðu loðnukvóta sinn í síðustu viku og er nú komnir á kolmunaveiðar. Páll Snorrason, framkvæmdarstjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju segir að vel hafi gengið á öllum vígstöðum Eskju á vertíðinni, að því er fram kemur á vef fyrirtækisins.
,,Þessi loðnuvertíð gekk mjög vel hjá Eskju. Aðalsteinn Jónsson kom inn til löndunar með síðustu hrognaloðnuna þann 14. mars síðastliðinn. Okkar skip fiskuðu tæp 23 þúsund tonn allt í allt á vertíðinni og var Aðalsteinn Jónsson með um 10,5 þúsund tonn af því, Jón Kjartans 9 þúsund tonn og Aðalsteinn Jónsson II 3,5 þúsund tonn. Þar að auki landaði grænlenska skipið Qavak 1.450 tonnum af hrognaloðnu og Norðborg frá Færeyjum landaði rúmlega 1000 tonnum í uppsjávarfrystihúsið okkar. Norsku skipin lönduðu samkvæmt mínu bókhaldi um 8,2 þúsund tonnum hjá okkur á meðan á verkfallinu stóð. Við tókum því á móti um 28 þúsund tonnum af loðnu á vertíðinni sem var ýmist fryst í nýju uppsjávarfrystihúsi félagsins, brædd í mjöl- og lýsisvinnslunni eða unnin úr henni hrogn. Þannig við eru mjög ánægð með vertíðina.“
Þess má geta að bæði Jón Kjartansson SU og Aðalsteinn Jónsson II lönduðu loðnu á Vopnafirði.
Öll þrjú skip Eskju, Aðalsteinn Jónsson, Jón Kjartansson og Aðalsteinn Jónsson II er nú á kolmunaveiðum á Rockall svæðinu og hefur veiði gengið vel.