Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er við það að afgreiða reglur um refsipunkta í fiskveiðum sem koma munu til framkvæmda á næsta ári. Um er að ræða hliðstæð refsistig og notuð eru vegna brota á umferðarlögum hér á landi og víðar.

Útgerðarmenn og sjómenn sem brjóta fiskveiðistjórnarlögin fá refsipunkta við lagabrot og þegar ákveðnum fjölda punkta er náð missa þeir veiðileyfið, fyrst tímabundið en við ítrekuð brot verður leyfið tekið af þeim til frambúðar.

Þessi ákvæði eru hluti af nýju eftirlitskerfi með fiskveiðum sem tekið verður í notkun á næsta ári. Því er ætlað að samræma eftirlitsreglur í öllum ESB-ríkjunum.

Refsipunktarnir verða birtir á skipaskrá þess lands sem skipið er frá.