Oliver Drewes, talsmaður Maríu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, hefur staðfest við færeyska blaðið Norðurljós að verið sé að undirbúa lög sem varða fiskveiðimál sem ekki hafa náðst samningar um. Samkvæmt þeim fær framkvæmdastjórn ESB heimild til þess að setja innflutningsbann á allar vörur sem framleiddar eru úr fiskistofnum sem kann að vera ógnað.

Þessum lögum er ætlað að verða vopn gegn Íslendingum og Færeyingum sem sett hafa sér eigin kvóta úr makrílstofninum.

Fyrr í þessari viku ræddi skoski sjávarútvegsráðherrann, Richard Lochhead, við Damanaki og þrýsti á hana að grípa til refsiaðgerða gegn Íslandi og Færeyjum vegna makrílveiða þeirra. Lochhead kvað Damanaki hafa fullvissað sig um að búast mætti við tilkynningu um aðgerðir á næstu dögum.