Evrópusambandið hefur skert fiskveiðikvóta í ár hjá tíu ESB-ríkjum til að refsa þeim fyrir ofveiði á árinu 2013, að því er fram kemur á vef SeafoodSource.

Þau lönd sem hér um ræðir eru Belgía, Danmörk, Grikkland, Spánn, Frakkland, Írland, Holland, Pólland, Portúgal og Bretland. Skerðing á kvóta nær til 45 fisktegunda. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, segir að fylgja verði reglum sambandsins fast eftir til að koma í veg fyrir ofveiði. Hún segir jafnframt að dregið hafi úr ofveiði árið 2013 miðað við árið á undan og því beri að fagna.