Í gær sömdu Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar um skiptingu veiðiheimilda á makríl. Ísland stendur utan þess samkomulags en ljóst var eftir fund í Edinborg i síðustu viku að fullreynt væri að ná samningi sem byggði á nýtingu á grundvelli ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES) líkt og íslenska samninganefndin lagði áherslu á. Samkomulag þessara þriggja ríkja er til næstu fimm ára og taka þau sér samtals 1.047.000 tonna afla í ár eða nær 18% umfram ráðgjöf ICES. Þar af taka ESB og Noregur til samans 890.000 tonn sem er allur ráðlagður heildarafli á þessu ári.
Um þetta segir Sigurður Ingi sjávarútvegsráðherra: „Við tókum þátt í samningaviðræðunum til þess að tryggja réttmætan hlut Íslands á grundvelli sjálfbærra veiða. Ljóst var að Færeyingar sæktust jafnframt eftir auknum hlut frá fyrri samningi. Niðurstaða þess samnings sem í gær var kynntur er að hlutur ESB og Norðmanna hækkar frá því sem var, í 100% af ráðgjöf, þ.e. 890 þúsund tonn og svo bæta þeir veiðum Færeyinga ofan á.“
Sjá nánar viðbrögð sjávarútvegsráðherra á vef ráðuneytisins.