Bann Evrópusambandsins við brottkasti í fiskveiðum kallar á meiri sveigjanleika við stjórn veiðanna líkt og tíðkast nú þegar í íslenska kvótakerfinu.

Þannig verður heimilt að breyta einni kvótategund í aðra upp að 9 prósentum til þess að eiga fyrir ófyrirséðum meðafla á veiðisvæðum þar sem margar tegundir halda sig saman. Þetta á meðal annars við um fiskimið skoskra skipa. Í frétt um málið í sjávarútvegsritinu Fishing News International er bent á að þetta sé kaldhæðnislegt í ljósi þess að með þessu sé verið að snúa núverandi kerfi á haus, þar sem hingað til hafi verið refsivert að tilkynna eina tegund sem aðra.

Einnig verður útgerðum hér eftir leyfilegt að geyma 10% af kvóta sínum til næsta árs eða veiða 10% umfram gegn frádrætti á næsta kvótaári.

Brottkastsbannið tekur gildi í uppsjávarveiðum í janúar 2015 og í öðrum veiðum í áföngum á árunum 2016-2019.