Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram árlega tillögu um viðmiðunarverð á næsta ári fyrir ferskar og frosnar fiskafurðir. Þar er gert ráð fyrir verðhækkun á flestum sjávarafurðum, að því er fram kemur á vef FiskerForum.
Markaðurinn hefur haldið áfram að rétta sig af á þessu ári eftir mikla lækkun á verði sjávarafurða árið 2009. Þótt gert sé ráð fyrir hækkunum á næsta ári er tekið fram að óstöðugt efnahagsástand kunni að hafa áhrif á kaupendur og leiða til verðsveiflna til skamms tíma. Þess vegna eru lagðar fram tillögur um hóflegar verðhækkanir.
Framkvæmdastjórnin leggur til verðhækkun á flestum hvítfisktegundum á árinu 2012, frá 1% og upp í 3% nema í kolmunna, rauðsprettu og fáeinum fleiri tegundum.
Eftirspurn eftir uppsjávartegundum hefur aukist og ESB leggur til 1,5% til 3% hækkun á uppsjávarafurðum, nema þeim afurðum sem unnar eru úr sardínum og ansjósum.
Þá er lagt til að viðmiðunarverð á frosnum fiskafurðum hækki um 1% til 3%.
Viðmiðunarverðið er grundvallað á meðalverði í aðildarríkum ESB undanfarin 3 ár.
Tillögur um viðmiðunarverð ESB má nálgast hér