Framkvæmdastjórn ESB tilkynnti miðvikudaginn 31. júlí að ráðgjafanefnd hennar um fiskveiðar og fiskirækt hefði gefið jákvæða umsögn um tillögu sjávarútvegsstjóra ESB um refsiaðgerðir gegn Færeyingum vegna síldveiða þeirra, að því er fram kemur á vef Evrópuvaktarinnar. Danskir fjölmiðlar sögðu í gær að ESB hefði endanlega samþykkt tillögur um refsiaðgerðir en það er greinilega aðeins orðum aukið.

Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri fagnaði umsögninni, hún veitti henni umboð til að grípa til ráðstafana til að tryggja sjálfbæra stjórn á síldveiðum með þátttöku allra viðkomandi strandríkja. Framkvæmdastjórnin mun ræða málið nánar og taka ákvörðun um næstu skref í ágúst. Refsingin kann að felast viðskipta- og löndunarbanni.

Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, segir að hótanir um refsiaðgerðir ESB í garð Færeyinga feli í sér valdníðslu sem eigi ekki heima í þessum heimshluta. „Það er mjög óvenjulegt að ákveðið sé að beita valdi í því skyni að knýja á um minnkun síldarkvóta.“

Hótanir ESB má rekja til þess að Færeyingar ákváðu einhliða að auka síldarkvóta sinn úr 5% í 17%.

Vestergaard segir að Færeyingar muni leitast við að verjast fyrir alþjóðlegum dómstólum. „Við munum auðvitað reyna að taka málið upp fyrir alþjóðlegum dómstólum,“ segir ráðherrann.

Sjá nánar:

http://evropuvaktin.is/frettir/29585/