Fiskvinnslufyrirtæki innan Evrópusambandsins fluttu inn 2,8 milljónir tonna af villtum hvítfiski úr sjó á árinu 2010 og  voru 89% þessa magns innfluttur fiskur. Ef innfluttur hvítfiskur úr ferskvatni er meðtalinn nam þetta hlutfall 91%.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem samtök evrópskra fiskinnflytjenda og fiskframleiðenda (AIPCE-CEP) létu gera. Alls voru flutt inn 925.000 tonn af hvítfiski úr ferskvatni á síðasta ári, þar af langmest af pangasíus frá Víetnam eða 700.000 en langt þar fyrir aftan komu nílarkarfi og tiapía.

Af einstökum hvítfisktegundum var mest flutt inn af þorski eða 961.000 tonn.

Hvítfiskur er aðeins hluti af fiskinnflutningi ESB. Alls nam fiskframboð innan sambandsins liðlega 15 milljónum tonna og voru 62% þess innfluttur fiskur. Útflutningur fisks frá ESB var liðlega 2 milljónir tonna, þannig að neyslan nam 13 milljónum tonna.

Frá þessu er skýrt í breska blaðinu Fishing News International.