Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur kynnti áform um umfangsmiklar endurbætur á fiskveiðistefnu sambandsins. Tillögurnar miða meðal annars að því að koma í veg fyrir brottkast. Gert er ráð fyrir að umbótatillögurnar verði hrint í framkvæmd árið 2013. Í þeim er skipum ennfremur tryggðar aflaheimildir til að minnsta kosti 15 ára, að því er fram kemur á vef BBC.
Markmiðið með umbótunum er að byggja upp fiskstofna og tryggja sjálfbærar veiðar í framtíðinni. Í frétt BBC er vitnað í orð Maríu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, sem segir að aðgerða sé þörf því 75% af nytjastofnum í lögsögu ríkja ESB séu ofveidd. Í samantekt framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að 82% af fiskstofnum í Miðjarðarhafi séu ofveidd en 63% í Atlantshafi.
Í nýju tillögunum er gert ráð fyrir því að skipum verði skylt að landa öllum fiski sem veiðist og að allur afli verði dreginn frá kvóta. Þetta á við tegundir eins og makríl, síld, túnfisk frá byrjun árs 2014. Þorskur, lýsingur og koli koma í kjölfarið árið eftir. Reglurnar ná svo til nánast allra nytjastofna frá og með árinu 2016.
Endurbæturnar gera einnig ráð fyrir því að einstökum ESB-ríkjum verði heimilt að koma með ívilnanir fyrir þau skip sem nota valkvæm veiðarfæri. Framkvæmdastjórnin segir ennfremur að of margar ákvarðanir um smæstu efni hafi verið teknar í Brussel. Í framtíðinni verði ákvörðunarvaldið fært meira til einstakra ríkja eftir því sem við á.
Markmið umbótatillagnanna er í sem stystu máli:
- Að tryggja að fiskveiðar skili hámarknýtingu á sjálfbæran hátt árið 2015.
- Stjórn fiskveiða taki mið af vistfræðilegum þáttum til að takmarka áhrif veiðanna.
- Dregið verði úr offjárfestingu og skipum fækkað með markaðslausnum frekar en styrkjum.
- Fiskeldi verði eflt til að tryggja fæðuöryggi og skapa atvinnutækifæri.
- Hugað verði að fleiri valkostum í stjórn fiskveiða en hingað til.
Breski sjávarútvegsráðherrann, Richard Benyon, segir tillögur framkvæmdastjórnarinnar vera fyrsta þýðingarmikla skrefið í endurbótum á fiskveiðistefnu ESB. Hann fagnar þeim sveigjanleika sem boðaður er.
Bertie Armstrong, formaður samtaka skoskra sjómanna, segir að tillögur ESB þýði 20% niðurskurð á fiskveiðiflota Skota að minnsta kosti og samsvarandi fækkun í stétt sjómanna.