Fiskveiðar í ríkjum Evrópusambandsins ná aðeins að anna helmingnum af þörfinni fyrir neyslufisk innan sambandsins. Álíka mikið af fiski og veiðist innan lögsagna ESB-ríkjanna er flutt inn frá löndum utan sambandsins.

,,Ef íbúar ESB-ríkja ættu að reiða sig eingöngu á fisk sem veiddur er í lögsögum ríkjanna hefði fiskurinn klárast 8. júlí síðastliðinn þegar á heildina er litið,” segir í skýrslu NEF, óháðrar stofnunar um efnahagsmál.

Fram kemur að ríkin innan ESB eru misháð fiskinnflutningi. Þannig hefði Spánn orðið fisklaus 1. maí,  Portúgal 2. apríl, Frakkland 20. júní, Þýskaland 5. maí, Ítalía 6. maí og Bretland 4. ágúst, - ef ekki hefði komið til innflutningur.

Fiskneysla á hvert mannsbarn innan ESB er mest í Portúgal eða 56 kíló á ári, á Spáni 42 kg, Litháen 37 kg, Frakklandi 35 kg, Finnlandi 32 kg. Um miðbik skalans eru m.a. Danmörk, Ítalía, Írland, Grikkland og Bretland með 20-25 kg ársneyslu. Minnstu fiskæturnar eru Rúmenía, Ungverjaland og Búlgaría með 4-5 kg á mann á ári.

Meðalfiskneysla á ári í ESB-ríkjunum er 26 kg á ári en meðalneysla í heiminum öllum er rúm 16 kg.