Ekki er vitað um nákvæman fjölda erlendra starfsmanna í sjávarútvegi en margt bendir til þess að hlutfall þeirra sé um og yfir 45%, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Á síðasta ári var erlent vinnuafl í heild um 10,3% af vinnandi fólki hér á landi, samkvæmt tölum sem Vinnumálastofnun birti nýlega. Að sögn Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá Vinnumálastofnun, liggja ekki fyrir opinberar upplýsingar um nákvæma skiptingu útlendinga eftir atvinnugreinum þar á meðal í fiskvinnslu.
„Við höfum þó ágætar vísbendingar um þátttöku útlendinga í fiskvinnslu hér á landi út frá atvinnuleysisskráningu í verkfalli sjómanna. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar störfuðu að jafnaði 3.600 manns við fiskvinnslu á Íslandi á árinu 2016. Á milli 1.200 og 1.400 manns voru á atvinnuleysisskrá á hverjum tímapunkti, frá seinni hluta desember og fram undir mánaðarmótin febrúar/mars vegna sjómannaverkfallsins. Alls komu um 1.600 manns eitthvað inn á skrá og af þeim var tæpur helmingur útlendingar. Þessar tölur segja okkur að líklega séu 45 til 50% starfsmanna í fiskvinnslu erlendir,“ sagði Karl.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.