Veiðar erlendra skipa í íslenskri lögsögu jukust á síðasta ári eftir mikinn samdrátt árið 2009 þegar loðnuveiðin brást. Veiðar erlendra skipa hér jafnast þó ekki á við það sem hún var fyrir nokkrum árum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Erlend skip veiddu alls 57 þúsund tonn af fiski á Íslandsmiðum á nýliðnu ári, samkvæmt tölum sem Fiskifréttir fengu hjá Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Þetta er mun meiri afli en á árinu 2009 en þá veiddu erlendu skipin ekki nema 22 þúsund tonn. Helgaðist það af því að erlend skip veiddu enga loðnu hér við land árið 2009. Verulega hefur dregið úr veiði erlendra skipa í íslensku lögsögunni síðustu árin en á árinu 2008 nam hún alls um 71 þúsund tonn og árið 2007 var hún 112 þúsund tonn.