Á árinu 2011 lönduðu erlend skip 83.000 tonnum af fiski til vinnslu hér á landi. Innflutt hráefni jókst í magni um rúm 2 þúsund tonn frá fyrra ári eða um 2,6%. Verðmæti þessa innflutnings var 9,9 milljarðar króna sem er rúmlega 1,7 milljarða króna hærri fjárhæð en árið 2010 á verðlagi hvors árs og 1,4% hærra á föstu verðlagi ársins 2011 miðað við verðvísitölur sjávarafurða.

Loðnan vegur þyngst í þessum innflutningi í tonnum talið eða tæplega 53.000 tonn að verðmæti um 2 milljarðar króna. Rækjan er hins vegar langverðmætasta innflutta hráefnið en keypt var iðnaðarrækja til frekari vinnslu fyrir 6,3 milljarða króna í fyrra. Magnið var 21.000 tonn.

Minna var flutt inn af kolmunna, loðnuhrognum, makríl og rækju en árið áður. Innflutningur jókst á þorski, ufsa, steinbít, hlýra, síld og loðnu. Verðmæti innflutts hráefnis nam 11,1% af verðmæti þess afla sem tekinn var til vinnslu hérlendis, segir á vef Hagstofunnar.