Erlend skip veiddu rúm 100 þúsund tonn af loðnu á Íslandsmiðum á vertíðinni. Þar af lönduðu þau 58 þúsund tonnum í höfnum á Íslandi, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Loðna af erlendum skipum er mikil búbót fyrir fyrirtæki í vinnslu á uppsjávarfiski á Íslandi. Landaður loðnuafli jókst um 30% vegna erlendu skipanna. Mestur afli kom af grænlenskum skipum, eða rúm 25 þúsund tonn, en þau lönduðu öllum afla sínum hér. Norsk skip lönduðu hér tæpum 25 þúsund tonnum, um 42% af afla sínum, og færeysk skip lönduðu um 8 þúsund tonnum, um 53% af afla sínum.

Eftir því sem næst verður komist má áætla að útflutningsverðmæti loðnuafurða sem unnar voru hér á landi úr afla erlendu skipanna gæti numið um 4,6 milljörðum króna af þeim tæpu 22 milljörðum sem talið er að loðnuvertíðin gæti skilað í útflutningstekjur.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.