Felld hefur verið úr gildi ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja um að afskrá fiskvinnslustarfsemi Erik the Red Seafood ehf. í Bolafæti í Reykjanesbæ.

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja ákvað 25. september síðastliðinn að afskrá fiskvinnslustarfsemi Erik the Red Seafood að Bolafæti 15 í Ytri-Njarðvík þar sem hún samrýmdist ekki gildandi skipulagsskilmálum fyrir svæðið.

Erik the Red kærði ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem síðan felldi hana úr gildi í gær.

Mikið tjón

Um málsrök Erik the Red segir meðal annars í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar að fyrirtækið hafi ekki verið gefinn neinn frestur til að aðlaga sig að gjörbreyttum aðstæðum og að ákvörðunin valdi fyrirtækinu miklu tjóni. Þótt fyrirsvarsmanni Eric the Red hafi síðar verið tjáð símleiðis að ekki þyrfti að loka starfsstöðinn strax hafi ekki verið orðið við ósk um skriflega staðfestingu á því.

Eric the Red sagði ekkert hafa komið fram sem gæfi til kynna að starfsemi fyrirtæksins bryti gegn aðalskipulagi Reykjanesbæjar og að nýtt deiliskipulag hefði ekki tekið gildi. „Sveitarfélag geti ekki ákveðið að breyta skipulagi fyrir svæði þannig að það útiloki starfsemi sem þar sé fyrir nema til komi bætur á móti. Hvað þá að breytt aðalskipulag geti veitt heilbrigðisnefnd vald til að loka starfsemi á þeim grunni,“ segir í úrskurðinum um sjónarmið Eric the Red sem segði auk þess gert ráð fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu og að fyrirtækið teldi sig því geta starfað áfram í húsinu.

„Takmörkuð lyktar- og hljóðmengun“

Þá er vitnað til þess sjónarmiðs Eric the Red að hagsmunir fyrirtæksins sem rekstraraðila og hagsmunir fasteignaeigenda við Bolafót séu jafnsettir við breytingar á aðalskipulagi. „Ítrekað sé að takmörkuð lykt- og hljóðmengun stafi af þeirri frystingu sem fari fram á starfsstöð kæranda að Bolafæti. Kærandi og eigandi eignarinnar hafi lagt töluvert í að bæta aðstöðuna og verklag til að koma til móts við sjónarmið nágranna,“ segir í umfjölluninni.

Úrskurðarnefndin segir meðal annars í ítarlegri niðurstöðu sinni að í skilmálum fyrir miðsvæði í greinargerð Aðalskipulags Reykjanesbæjar sé mælt fyrir um að iðnaðarstarfsemi sé almennt víkjandi á miðsvæðum en að heimilt sé að veita starfsleyfi til áframhaldandi reksturs þeirrar starfsemi sem þegar fari fram á svæðunum nema annað komi fram.

„Sérstaklega er kveðið á um að grundvöllur „rekstrarleyfa starfandi iðnaðar“ á svæðinu við Bolafót verði endurskoðaður við gerð deiliskipulags,“ segir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.