Um helgina voru 22.600 tonn óveidd af loðnukvóta Norðmanna  upp á 221.000 tonn. Í síðustu viku veiddust 24.000 tonn og var rúmum helmingi landað í manneldisvinnslu en hitt fór í bræðslu.

Loðnuvertíðin í Barentshafi hefur gengið mjög erfiðlega að þessu sinni, veður óhagstætt og loðnan óvenjusmá. Á vef norska síldarsamlagsins segir að vonast  sé til þess að meiri loðna láti sjá sig þannig að unnt verði að ná leyfilegum kvóta. Loðnan hefur verið á vesturleið að undanförnu og veiddist afli vikunnar að mestu úti fyrir strönd Troms-fylkis.