Alls greindust 133 fyrstu kynslóðar blendingar, það er afkvæmi eldislaxa og villtra laxa, í sautján ám í rannsókn Hafrannsóknarstofnunar. Í heild greindust blendingar í 2,1 prósent sýna innan 18 prósent áa.
Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar. Eldri blöndun, það er að segja önnur kynslóð eða eldri, greindist í 141 seiðum í 26 ám sem er 2,2 prósent sýna, innan 29 próent áa.
„Fyrstu kynslóðar blendingar voru algengari á Vestfjörðum en Austfjörðum sem er í samræmi við að eldið á Austfjörðum hófst síðar og hefur verið umfangsminna. Eldri erfðablöndun var tíðari á Austfjörðum en Vestfjörðum og tengist líklegast eldinu sem þar var starfrækt í byrjun þessarar aldar. Eldri erfðablöndun var mest áberandi í Breiðdalsá og greindist í 32 prósent (72 af 228) seiðanna,“ segir á vef Hafró.
Þá segir að erfðablöndun hafi yfirleitt greins í minna en 50 kílómetra fjarlægð frá eldissvæðum en að nokkrir blendingar hafi fundist í allt að 250 kílómetra fjarlægð.
„Þessi viðamikla rannsókn staðfestir mikilvægi frekari rannsókna. Við þurfum að skoða kynslóðaskiptingu blendinganna ásamt umfangi þeirra og orsökum dreifinga eldri blöndunar,“ er haft eftir Guðna Guðbergssyni, sviðsstjóra ferskvatns- og eldissviðs Hafró.
Áfram segir síðan að þörf sé á frekari rannsóknum á kynslóðaskiptingu blendinga, umfangi og orsökum dreifingar eldri blöndunar. „Niðurstöðurnar sýna að erfðablöndun hefur orðið við hlutfallslega lítið eldismagn.“