Eitt af umræðuefnum í norskum sjávarútvegi þessa dagana er spurningin hvort of mikið sé til af þorski í hafinu, að því er fram kemur í frétt norska ríkissjónvarpsins. Norskur sjávarútvegur getur ekki kvartað yfir slæmu ástandi í sjónum því flestir nytjastofnar eru í sögulegu hámarki. Einn þessara fiskistofna er þorskurinn.
Fara þarf allt aftur til eftirstríðsáranna til að finna tölur um stærri þorskstofn í Norðaustur-Atlantshafi og nú. Fyrir fimm árum ráðlögðu fiskifræðingar að þorskkvótinn yrði 309 þúsund tonn. Nú hljóðar ráðgjöf þeirra upp á 751 þúsund tonn, aukningin er 143%.
,,Við veltum þeirri spurningu fyrir okkur hvort of mikið sé af þorski í hafinu. Þorskurinn étur mikið magn af öðrum fiski sem hægt væri að nýta í öðrum tilgangi. Þorskurinn étur einnig 220 þúsund tonn af þorski!“ segir Reidar Nilsen, formaður Norges Fiskarlag, heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi, í samtali við NTB fréttastofuna.
Þetta málefni verður rætt á landsfundi Norges Fiskarlag sem haldinn er í Þrándheimi nú í vikunni. Reidar Nilsen segir að fiskimenn telji jafnvel koma til greina að veiða þorskstofninn niður til þess að skapa meira svigrúm fyrir aðrar fisktegundir.