„Er þetta ekki bara ágætt?“ spyr Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, aðspurður um endurskoðaða loðnuráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem kynnt var í morgun þar sem bætt er í um 57 þúsund tonn.

„Ég hef alltaf verið hlynntur því að loðnuveiðar séu stundaðar á hverju einasta ári. Það hefur verið loðna hér í sjónum öll árin. En ég hef aldrei skilið þessi loðnuveiðibönn og svo milljón tonna veiði á víxl. Það er fyrir ofan minn skilning. Þessi nálgun er afar óskynsamleg,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Hann segir að loðnuráðgjöfin í fyrra hafi verið gríðarlega mikil og í raun „algjörlega úti á túni“.

„Ég hef í marga áratugi gert fyrirvara við þessa aðferðarfræði með aflareglu. Aflareglan gerir ráð fyrir því að ákveðið magn sé skilið eftir í sjónum. Það væri miklu skynsamlegra að leyfa einhverjar veiðar á hverju ári. Loðnan heldur sig svo mikið undir ís og það væri ekki fræðilegur möguleiki að veiða hana alla upp. En það er mjög kostnaðarsamt fyrir okkur að vera með loðnulaus ár upp á markaðsverðmæti að gera. Þess vegna líst mér ágætlega á ráðgjöfina núna. Þegar bent er á mikla ungloðnumælingu fyrir einu og hálfu ári má um leið benda á að enginn bræla og ís var á svæðinu þegar mælingarnar voru gerðar. Sum árin er ís og brjálað veður og þá verður Hafró að segja að það sé engin loðna. Við vitum allir að það er loðna í sjónum en hún er undir ís,“ segir Guðmundur.