Vinsældir sushi-rétta halda áfram að aukast í heiminum en nú velta menn því fyrir sér hvort sushi sé í útrýmingarhættu í upprunalandinu Japan, að því er fram kemur í frétt á vef fis.com.
Tilefni þessara vangaveltna er að evrópska fjárfestingarfélagið Pemira hefur nýlega keypt Akindo Suishiro, stærstu sushi-keðju í Japan, og ætlar að útvíkka starfsemina fyrir utan Japan. Á sama tíma hafa einstaka sushi-veitingastaðir í Japan verið lagðir niður vegna minnkandi sölu eða þá að enginn í fjölskyldunni er tilbúinn til að taka við þegar eigendur hætta vegna aldurs.
Þessi þróun er í samræmi við minnkandi umsvif hjá hinum fræga Tsukiji fiskmarkaði í Tokyo og hnignandi sjávarútveg í Japan almennt. Bent er á að fiskstofnar við Japan séu í lægð, fiskveiðar séu óhagkvæmar og stjórn fiskveiða sé ábótavant. Víðtækar umbætur þurfi því til að rétta sjávarútveginn við.