Allt útlit er fyrir að norsk-íslenska síldin sé smátt og smátt að tapa baráttunni við makrílinn um fæðuna í sjónum. Makríllinn er bæði stærri, fljótari og úthaldsbetri en síldin auk þess sem hann hefur betri möguleika á því að nýta minni þörunga en síldin.
Þetta segir Leif Nøttestad leiðangursstjóri í alþjóðlegum makrílleiðangri norska rannsóknaskipsins G.O. Sars sem nú stendur yfir til að kanna útbreiðslu makríls í norðurhöfum.
„Hvernig reiðir norsk-íslensku síldinni af þegar makríllinn í Norðaustur-Atlantshafi nánast ryðst inn í „matsalinn“ hjá síldinni án þess að hafa verið boðið í mat? Áður hafði síldin líklega stóran hluta Noregshafs að mestu leyti fyrir sig og átti aðeins í takmarkaðri samkeppni við aðra fiska um matinn,“ segir Leif Nøttestad ennfremur.