Tómas Kristjánsson, skipstjóri á Beiti NK, segir veiðiárið í fyrra hafi verið eitt það besta í langan tíma. Einstaklega vel hafi gengið hjá öllum skipum Síldarvinnslunnar.

„Afli í tegundum hjá okkur á Beiti var 18.717 tonn af loðnu, 26.106 tonn af kolmunna, 8.427 tonn af makríl og 16.750 tonn af síld eða samtals 70.001 tonn. Veður var yfirleitt gott og ágætis ról á þessu,“ segir Tómas.

Hins vegar segir skipstjórinn að það sem nú sé að gerast með loðnuna sé ekki gott og komi illa við sjómenn, fyrirtæki í landi og starfsfólk í vinnslustöðvum.

Þarf að efla Hafrannsóknastofnun

„Menn geta diskúterað þennan loðnubrest í marga hringi en þetta er bara útkoman, því miður, og lítið hægt að breyta því á þessu stigi. Það má samt segja að loðna hafi sést víða seinnipart vertíðar tímabils og sumstaðar í talsverðu magni. Það voru til dæmis torfur á ferð yfir Papagrunn 6. og 7. mars sem bendir til að göngur hafi farið djúpt og verið seint á ferð,“ segir Tómas.

Það sem þarf að sögn Tómasar er öflugra eftirlit af hálfu Hafrannsóknastofnunar. Með því þurfi algjöran skilning ríkisins og þeirra sem stjórna á hverjum tíma.

„Í rauninni þarf það að vera ríkisstjórnin eða ráðherra sem hvetur til rannsókna og eftirlits með stofnunum því það er mikið í húfi þegar kemur að loðnunni. Ríkissjóður verður af miklum tekjum vegna loðnubrests og sjá það allir sem stýra og stjórna landinu. Pressan ætti í raun að byrja hjá fjármálaráðherra og þaðan til matvælaráðherra. Það er ekki hægt að fjársvelta stofnun eins og Hafrannsóknastofnun því þaðan kemur ráðgjöfin sem oftast er farið eftir varðandi kvótann.“

Viðhorf til sjómennsku sveiflast

Sjávarútvegur er vitanlega einn helsti máttarstólpi efnahagslífsins en margir hafa skoðun á því hvernig best sé að hátta málum á því sviði. Tómas er spurður um viðhorf almennings til greinarinnar.

Beitir NK á Skjálfanda. Mynd/Hafþór Hreiðarsson
Beitir NK á Skjálfanda. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

„Viðhorf og virðing fyrir sjómennsku á undanförnum árum hefur sveiflast dálítið til en venjulega er það alltaf virðingarvert starf. Sjómenn takast á við mismunandi verkefni í mismunandi aðstæðum líkt og gerist hjá mörgum öðrum stéttum. Það sem gerir hins vegar sjómennskuna svolítið sér á báti eru veðuraðstæður, langar siglingar og baráttan við að ná góðum túr á sem skemmstum tíma. Það er alltaf gaman að koma heim með fullt skip en í dag snýst þetta ekki síður um það að hafa hráefnið sem ferskast og sem best kælt.“

Fiskveiðistjórnarkerfið segir Tómas að alltaf megi deila um. „En það hefur þó skilað okkur nokkuð góðum árangri í mati tegunda fram til þessa, þrátt fyrir að loðnan sé nú alltaf frekar mikill óvissuþáttur. Kvótinn gerir fyrirtækjum yfirleitt kleift að skipuleggja sig fram í tímann og gera ákveðna samninga við kaupendur,“ segir hann.

Kjarnorka til orkuskipta á sjó

Nokkuð er nú rætt um orkuskipti, líka úti á sjó. „Ég sé í rauninni ekki fyrir endann á notkun jarðefnaeldsneytis en það eru reyndar miklar framfarir í þróun á búnaði til sparnaðar og í dag eru nýjustu fiskiskipin mun sparneytnari heldur en þau voru fyrir tíu árum,“ svarar Tómas spurður um sína sýn í þessum efnum.

„Raforkan er að koma talsvert inn á markaðinn fyrir skip samanber Herjólf en þetta gengur einungis á styttri leiðum og á skemmri tíma. Kjarnorkuknúin fiskiskip er kannski það næsta en venjulegur kjarnorkukafbátur getur verið í allt að þrjá mánuði á ferð og þarf þá einungis að koma í land til að sækja vistir,“ segir Tómas.

Þá nefnir Tómas að Norðmenn hafi verið að prófa sig áfram með gas sem orkugjafa um borð í fiskiskipum. Það gangi ágætlega en gasið taki mikið geymslurými. „Margt annað er að ryðja sér til rúms eins og til dæmis búnaður sem breytir útblásturshita frá vélinni í raforku sem nýtist síðan um borð í skipunum,“ segir hann.

Fjórði og síðasti hluti viðtalsins við Tómas Kárason verður birtur á vef Fiskifrétta á mánudag, annan í páskum.