Á vef Nofima (sem er norska Matís) má lesa að á sama tíma og staða íslenskrar hvítfiskvinnslu sé sterk og greinin arðbær séu orð eins og krísa, taprekstur og vinnslustöðvun gjarnan notuð þegar rætt sé um fiskvinnslu í Noregi.
Greinin á vef Nofima fjallar um mastersritgerð sem nemandi við háskólann í Tromsø skrifaði þar sem samanburður er gerður á norskum og íslenskum sjávarútvegi. Höfundur ritgerðarinnar hefur greint reikningsskil, löndunartölur og útflutningstölur í Noregi og á Íslandi árin 2003 til 2012 til að svara þeirri spurningu hvort íslenskur sjávarútvegur hafi varanlegt samkeppnisforskot á þann norska, í hverju hann felist þá og hvort hægt sé að yfirfæra „íslensku leiðina“ til Noregs.
Í ritgerðinni kemur fram að ein helsta skýringin á því að fiskiðnaðurinn á Íslandi sé arðbærari en í Noregi sé sú hvernig skipulagi og uppbyggingu sé háttað hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
Á Íslandi eru mörg félög sem hafa alla virðiskeðjuna á einni hendi, allt frá veiðum til útflutnings sjávarafurða. Í Noregi er aðeins eitt fyrirtæki sem er þannig uppbyggt. Eftir því sem starfsemi íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna er umfangsmeiri þeim mun meiri er hagnaður þeirra.
Bent er á það í ritgerðinni að Norðmenn hafi nokkra yfirburði þegar litið er á aðgengi að hvítfiski við ströndina eða nálægt landi. Dæmið snúist hins vegar við þegar komi að löndunarmynstri. Íslensk skip geti veitt allt árið á heimamiðum og veiðigeta flotans nýtist þar af leiðandi mun betur allt árið. Í Noregi einskorðist veiðitímabil þorsks sem landað er til vinnslu við hrygningargöngu fisksins.
Íslensk fyrirtæki eru markaðsdrifnari en þau norsku, segir í ritgerðinni. Þau flytji út stærra hlutfall af ferskum fiskafurðum og sækist eftir því að veiða hvítfisk að miklum gæðum á línu.