Veðurofsinn sem gengið hefur yfir England hefur komið í veg fyrir að flest fiskiskip við suðurströnd landsins hafi komist á sjó síðan fyrir jól. Þetta hefur leitt til þess að fiskverð hefur hækkað hratt og þá freistast menn til að fara á sjó þótt veður sé tvísýnt, að því er fram kemur á fréttavefnum fis.com.
Vegna lítils framboðs hefur fiskverð tvöfaldast í sumum tilvikum. Minni bátar eru bundnir við bryggu og togarar hafa aðeins getað verið að veiðum stutta stund í einu. Þá hafa margir ekki komist á sjó vegna þess að bátar hafa brotnað í veðrinu eða veiðarfæri og búnaður eyðilagst. Tjónið er talið skipta milljónum sterlingspunda.
Veðrið hefur haft veruleg áhrif á útgerð 2 þúsund báta og um 4 þúsund fiskimanna. Þá hefur fiskileysið haft mikil áhrif á fiskvinnslur í landi sem vantar hráefni.