Sjávarútvegsráðherra gefur ekki út leyfilegan heildarafla í úthafsrækju að sinni. Síðastliðin þrjú ár hafa veiðar á úthafsrækju verið frjálsar. Fyrir liggur vilji um að veiðarnar lúti stjórn að nýju, að því er fram kemur í frétt frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Í fréttinni segir að á vormánuðum hafi verið ljóst að afli færi fram úr ráðgjöf. Veiðar hefðu verið stöðvaðar frá og með 1. júlí. Líkast til væri veiði samanlagt á úthafsrækju og rækju frá miðunum við Snæfellsnes á þessu fiskveiðiári tæplega 40% umfram ráðgjöf. Ljóst sé að bregðast þurfi við. Viðfangsefnin því tengd væru flókin og væru nú til lögfræðilegrar skoðunar.