Alls 29 íslensk fyrirtæki eru skráð á íslenska sýningarbásinn á sjávarútvegssýningunni í Brussel sem haldin verður undir lok þessa mánaðar. Þetta eru ekki færri fyrirtæki en á þessari sömu sýningu í fyrra, að sögn Berglindar Steindórsdóttur sýningarstjóra hjá Íslandsstofu.
Sem kunnugt er tilkynnti HB Grandi að hann væri hættur við þátttöku í öryggisskyni vegna hryðjuverkanna í Belgíu á dögunum. Berglind segir í samtali við Fiskifréttir í dag að fjögur fyrirtæki hafi hætt við þátttöku undir þeirra hatti en ekkert þeirra sé af svipaðri stærðargráðu og HB Grandi.
Á vefnum Seafoodsource.com segir að yfir 1.650 fyrirtæki frá 70 löndum hafi skráð sig til þátttöku á Seafood Expo Global og Seafood Processing Global í Brussel og búist sé við 26.000 gestum á sýninguna. Skipuleggjendur hennar segja að sýningarrými þeirra sem hætt hafi verið að koma jafngildi um 3% af heildarsýningarrýminu.