Fiskverkendur í Grimsby geta ekki búist við neinni marktækri aukningu á fiski frá Íslandi í náinni framtíð. Þetta kom fram í máli Jónasar Viðarssonar, fagstjóra hjá Matís, á ráðstefnu í Grimsby.

Jónas hefur unnið að nokkrum verkefnum með fiskframleiðendum á Humbersvæðinu. Jónas fjallaði um verkefnið á ráðstefnu en vék einnig að framboði á fiski frá Íslandi. Hann benti á að ýsustofninn við Ísland væri í lægð og ólíklegt að hann myndi ná sér á strik á næstu árum. Samdráttur í ýsukvóta minnkaði framboð af ýsu á fiskmarkaði í Grimsby.

Í öðru lagi væru dæmi um að stærri fiskframleiðendur á Íslandi hefðu keypt smærri útgerðir sem hefðu sent fisk á markað í Grimsby. Vegna efnahagsástandsins sæju fiskframleiðendur sér hag í því að vinna fiskinn hér heima frekar en að senda hann óunninn á markað erlendis. Loks gat Jónas þess að verð á fiskmörkuðum á Íslandi væri sambærilegt við það verð sem fengist á markaði í Grimsby. Menn sæju sér ekki jafnmikinn hag í því að senda óunninn fisk úr landi og áður.